Námskeiðin eru haldin af Pétri Thomsen ljósmyndara og myndlistamanni.
Pétur hefur starfað sem ljósmyndari og myndlistamaður í yfir 10 ár. Meðfram því hefur hann kennt ljósmyndun bæði á Íslandi og erlendis. Meðal annars í Listaháskóla Íslands, Ljósmyndaskólanum og á work shop í Finnlandi og Frakklandi svo dæmi séu tekin. Pétur sér einnig um Nikon Skólann á Íslandi.

Pétur Thomsen hefur á síðustu árum vakið athygli, bæði á Íslandi og erlendis, fyrir verk úr ljósmyndaröðunum Aðflutt landslag og Umhverfing, sem báðar fjalla um manninn andspænis og í náttúrunni, og tilraunir hans til að móta og breyta náttúru í manngert umhverfi.

Pétur er með BTS gráðu í ljósmyndun frá Ecole Supérieure des Métiers Artistiques og MFA gráðu frá École Nationale Supérieur de la Photographie í Arles í Frakkalandi. Á síðustu árum hefur hann verið með einkasýningar í Listasafni Íslands (2010), Transphotographique í Lille í Frakkalandi (2010) og Ljósmyndasafni Reykjavíkur (2010) og tekið þátt í fjölda samsýninga, m.a. á Íslandi, Spáni, í Grikklandi, Danmörku, Noregi, Finlandi, Frakklandi, Belgíu, Bandaríkjunum og Japan.

Pétur hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkeningar. Árið 2004 vann hann hin virtu Prix LVMH des jeunes créateurs. Árið 2005 var Pétur valin einn af 50 áhugaverðustu ljósmyndurum framtíðarinnar og tók þátt í reGeneration verkefninu á vegum Elysée listasafnsins í Sviss.

Sýningin Aðflutt landslag í Listasafni Íslands var valin myndlistarsýning ársins 2010 af gagnrýnendum Morgunblaðsins.

 

 


Myndina hér að ofan tók Kristinn Ingvarsson ljósmyndari af Pétri í ferð á vegum Nikon.

 

 

Frekari upplýsingar um Pétur og verk hans má fá hér www.peturthomsen.is